Í dag er Mánudagur 22. janúar 2018
Heim » Innlent » Coca Cola bikar » FH íhugar að kæra framkvæmd leiks 3.flokks karla í Coca Cola bikarnum

FH íhugar að kæra framkvæmd leiks 3.flokks karla í Coca Cola bikarnum

ICELANDAIR STYRKIR ÍSLENSKAN HANDBOLTA

FH íhugar að kæra framkvæmd leiks í bikarúrslitum 3. fl. karla en leikurinn fór fram í gær. Valur varð bikarmeistari með eins marka sigri á FH. Atvikið sem um ræðir átti sér stað í upphafi seinni hálfleiks en Valsmenn voru tveimur mönnum of margir inná þegar seinni hálfleikur var flautaður á.

Tveir Valsmenn höfðu fengið 2 mínútna refsingu þegar 1.50 mín voru eftir af fyrri hálfleik og því áttu þeir 10 sekúndur eftir að refsitímanum í upphafi þess síðari. Eins og sést greinilega á upptöku leiksins er greinilegt að Valsmenn eru með fullskipað lið þegar dómari leiksins, Hörður Aðalsteinsson blæs seinni hálfleikinn í gang.

FH-ingar bregðast við og benda eftirlitsdómara á atvikið sem stoppar leikinn. Niðurstaða Harðar og alls dómaratríósins er að refsa Valsmönnum ekkert. Samkvæmt öllu eðlilegu hefðu Valsmenn átt að vera fjórum færri í nokkrar sekúndur og svo tveimur færri í tæplega tvær mínútur til viðbótar.
Sigurgeir Árni Ægisson, framkvæmdastjóri hkd FH og þjálfari FH í umræddum leik hafði þetta að segja við Fimmeinn: „Það er alltaf leiðinlegt að tapa handboltaleik, og ekki verður maður minna tapsár með aldrinum. Ég er auðvitað með FH-gleraugu en mér fannst dómarar leiksins ekki höndla verkefnið, langt í frá.

En dómarar geta átt slæma daga, eins og leikmenn og þjálfarar – þannig er það nú bara. Ég hins vegar næ ekki þessu upphafsatriði seinni hálfleiks. Mér er þetta með öllu óskiljanlegt. Að þrír reynsluboltar, dómarapar og eftirlitsdómari, hafi komist að þessari niðurstöðu af yfirlögðu ráði finnst mér bara dapurlegt.

Maður gerir þá kröfu að menn sem hafa dæmt í efstu deildum kk og kvk og fá laun fyrir störf sín, séu með reglurnar á hreinu.“
Ætlar FH þá að kæra leikinn: „Við erum bara að skoða það. Þú kærir ekki leik vegna dómaramistaka en framkvæmd leiks getur þú kært. Það er ekkert kappsmál að fá þennan leik spilaðann aftur, leikurinn er tapaður. Kappsmálið og prinsippið er hins vegar að það sé tekið á svona málum, og að menn hysji upp um sig brækurnar þegar menn eru með allt niðrum sig.“ sagði Sigurgeir að lokum.

Leikinn mà sjà hér: http://sporttv.is/handbolti/urslitaleikir-i-coca-cola-bikar-yngriflokka-fh-valur-3fl-karla

ICELANDAIR STYRKIR ÍSLENSKAN HANDOLTA
Athugasemdir