Í dag er Mánudagur 22. janúar 2018
Heim » Innlent » EM dagbók – Dagur 2: Misst af strætó og rafmagnsleysi – Stóri dagurinn á morgun

EM dagbók – Dagur 2: Misst af strætó og rafmagnsleysi – Stóri dagurinn á morgun

ICELANDAIR STYRKIR ÍSLENSKAN HANDBOLTA
U-20

U-20

Smelltu hér til að hlusta á dagbókina.Voice_160728_5[1]

Nú er komið að dagbók fyrir dag tvö hjá mér hér í Kolding á EM U-20. Þessi dagur gékk ekki alveg upp á 10 en maður aðlagast aðstæðum og reddar sér.

Til að byrja með missti ég af morgunmatnum þar sem ég var ennþá búinn á því úr ferðaþreytu og tókst mér hreinlega ekki að vakna í hann. Bíð ennþá spenntur að sjá hvernig morgunmatur er á þessu príðilega hóteli í Kolding.

Í fyrsta skipti í þessari ferð var komin einhver dagskrá tengd liðinu og var það æfing liðsins kl 15:00, ég er ennþá að venjast tímamismuninum og er klukkan á tölvunni minni stillt á íslenskan tíma en klukkan í Danmörku þessa stundina er tveim tímum á undan. Ég var því í mestu makindum mínum í tölvunni minni og lítið að stressa mig á hlutunum þegar ég átti að vera mættur upp á strætóskýli að taka næsta vagn til Vamdrup þar sem liðið æfir og keppir. Þegar ég loks átta mig á því er vagninn farinn. Ég skoða hins vegar bjargvættinn minn, Google Maps og á ég möguleika á því að vera mættur á slaginu 15:00 upp í höll ef ég næ næsta strætó.

Ég er ekki mikill hlaupari þessa dagana og er þolið ekki upp á 5.5 einu sinni en mér tókst naumlega að komast að strætóskýlinu áður en vagninn átti að fara. Google Maps, bjargaði mér að komast þangað. En Google Maps er ekki fullkomið, það sagði mér að vera á einum stað til að ná vagninum en hann keyrði framhjá mér hinum megin við götuna og missti ég því af honum líka. Nú voru góð ráð dýr. Þá heyrði ég í lest keyra framhjá og tók ég, maðurinn sem er ekki með 5.5 af 10 mögulegum í þoli, upp að því að spretta upp að lestarstöð. Það var góður tíu mínútna sprettur og gat ég vart andað eftir hann. Þá sá ég að lest til Vamdrup, myndi koma stuttu seinna og ég yrði þá mættur á æfinguna kl 15:30.

Einni lestarferð síðar var ég kominn til Vamdrup og tók þá við um tíu mínútna labb yfir í höllina. Þá var ég loks mættur á æfinguna sem var komin af stað. Ég sem ætlaði að vera svo mikill fagmaður og mæta hálftíma áður en liðið mætti en hvað um það. Æfingin fór fram og var gaman að sjá Óla Stef stýra henni eins og herforingi. Það var mikið tekið á, æft hraðaupphlaup og æft hvernig liðið ætlar sér að komast framhjá 5-1 vörninni sem Rússarnir spila. Eftir það náðist smá tími í viðtöl en svo var haldið til hótel liðsins og fékk ég að fljóta með liðinu til baka. (þakka guði fyrir það miðað við hversu erfitt var að komast þangað) þaðan tók svo við önnur strætóferð sem nú gékk vel, enda ég orðinn fagmaður i dönskum strætóferðum.

Þegar á hótelið mitt var komið ætlaði ég svo að vinna efnið mitt og var rétt að byrja þegar netið datt út. Ég er einstaklega rólegur einstaklingur og ætlaði ég að tala við yndælu konuna sem rekur hótelið og biðja hana vinsamlegast um að laga netið. Viti menn, þá var hún mætt í símann að redda þessu áður en mér tókst að tala við hana. Það gladdi mig mjög, þangað til hún var búin í símanum, þá tjáði hún mér að það var rafmagnslaust í allri borginni og það yrði þannig í einhvern tíma. Ég gat því lítið gert, netlaus í Danmörku með fullt af efni sem mig langaði að henda inn sem fyrst. Ég lagði mig því í klukkutíma og til allrar hamingju var rafmagnið aftur komið á, að lögn lokinni.

Þá henti ég inn öllu mínu efni. Vegna tafanna er ég hér, eftir kl 2 að miðnætti að skrifa þessa dagbók. Þessi dagur gékk ekki fullkomlega upp en hann fer í reynslubankann, sem er sístækkandi hjá manni þegar maður ferðast einn erlendis. Það er lítið við mótlæti að gera annað en að gera það besta úr aðstæðum og mér finnst ég hafa gert það mjög vel, enda allt mitt efni komið inn og ég búinn að prófa lest í Danmörku í fyrsta sinn.

Stóra stundin er á morgun, Ísland – Rússland í fyrsta leik. Hörkuleikur gegn fínu rússnesku liði og vonandi verð ég hér að skrifa um sætan sigur á morgun. Vona samt líka að það verði aðeins fyrr.

Með innilegri kveðju frá Kolding.
Jóhann Ingi Hafþórsson

 

ICELANDAIR STYRKIR ÍSLENSKAN HANDOLTA
Athugasemdir